
Hafbrymur
Þessi saga gerist árið 1927. Sjómennirnir Óli og Bárður eru um borð á lítilli seglskútu sem ber nafnið Hafbrymur. Þeir bræður eru búnir að veiða í marga daga en hafa alltaf gripið í tómt. Í miðjum Bakkafirðinum lentu þeir svo í blindandi þoku. Óli er að baksast í netinu og Bárður að hífa akkerið. Allt í einu öskrar Óli. Bárður snýr sér við þar og sér stærðarinnar öldu, að minnsta kosti þriggja hæða háa. Aldan tekur bátinn heljartökum og snýr honum á hvolf.
Þegar Bárður rankar aftur við sér og lítur í kringum sig sér hann að þeir eru ekki lengur staddir úti á sjó. Þeir eru komnir í land og báturinn er úti á miðju túni. Óli liggur meðvitundarlaus við hliðina á bátnum. Bárður stekkur frá borði og kíkir á Óla. Hann reynir að vekja bróður sinn með því að slá hann í andlitið og Óli rankar loks við sér. Hann hóstar upp bæði vatni og fisk.
Óli er afar skelkaður. Þegar Bárður spyr hann hvað sé að starir Óli á bróður sinn og segir svo: „Sástu það ekki?!“
„Ertu að tala um ölduna?“ spyr Bárður forvitinn. Óli rífur í hálsmálið á Bárði og segir:
„Nei, Bárður! Sástu ekki augað?!“
„Hvað ertu að tala um?“ spyr Bárður til baka.
„Ég er að tala um risa ófétið sem henti okkur á land, Bárður!“
Bárður er nú skelfingu lostinn og heimtar að fá að vita hvað Óli sá. Stamandi svarar Óli: „Þetta var stór... uhhh... steinn. Sem leit út eins og kolkrabbi. Með risastórt sægrænt auga, umlukið hrúðurkörlum.“ Bárður er nú orðinn hálfhræddur. Hann lítur um öxl í áttina að firðinum og sér skyndilega risastórt sægrænt auga stara á móti, marandi hálft í kafi.
Bárður starir á augað og kallar loks á það: „Farðu burt og komdu ekki aftur!“ Við þetta kemur augað enn meira úr kafi en Bárður haggast ekki.
Skrímslið veinar. Öskrið er hátt og skrækt.
Svo hverfur það í fjörðinn og hefur ekki sést síðan.
​​
​
31. maí 2025
Ragnar, Jóhannes, Ari og Thor.
Höfundar eru nemendur í Grunnskólanum á Þórshöfn
​